Hvað er SNAG golf?
Hvað er SNAG golf?
SNAG (Starting New at Golf) er frábært kennslukerfi sem ætlað er fólki á öllum aldri og hvaða getustigi sem er. Kerfið hentar báðum kynjum, börnum, fullorðnum og öldruðum. SNAG kerfið hentar einnig vel til að kenna fötluðum einstaklingum.
SNAG má setja upp hvort heldur er úti eða inni. Kennslan er þess vegna ekki bundin golfvelli eða æfingasvæði því nota má SNAG þar sem aðstæður leyfa hverju sinni.
SNAG snýst um að hafa gaman á meðan verið er að læra grundvallaratriðin í golfi. Hugtökin sem notuð eru í SNAG skapa skýrar myndir í huga nemandans og stuðla þannig að auknum skilningi hans á golfleiknum.
Um 8.000 skólar víða um heim hafa náð góðum árangri í að kynna golfíþróttina fyrir nemendum sínum.
SNAG kerfið
SNAG hefur verið í stöðugri þróun síðustu 10 ár og er vel þekkt í golfheiminum sem öðruvísi og skemmtileg nálgun á kennslu undirstöðuatriða í golfi.
SNAG inniheldur alla þætti hefðbundins golfs en í breyttu formi. Notaður er sérstaklega hannaður golfbúnaður til að einfalda lærdómsferlið. Hann má nota á óhefðbundnum stöðum, eins og fótboltavöllum, í íþróttastöðvum, úti á túni eða niðri á strönd. Lykillinn að SNAG er einföld fyrirmæli sem leiða til árangursríkra breytinga á golfleiknum. Búnaðinum fylgir handbók með ítarlegum leiðbeiningum fyrir alla þætti leiksins: þann líkamlega, andlega og tilfinningalega.
Kerfið kennir grundvallaratriðin í mismunandi strokum og sveiflum fyrir púttin, stutta spilið og langa spilið til að þróa spilagetu á fljótlegan og árangursríkan hátt. Hver kennslustund samanstendur af 60 mínútna þjálfun sem deilast niður í sex mínútna stöðvar og endað er á 30 mínútna leik.
SNAG má kenna og spila svo til hvar sem er. Allir geta tekið þátt og náð jákvæðum og góðum árangri. Þessi skjóti árangur verður þess valdandi að áhuginn vex og nýir nemendur vilja halda áfram.
SNAG þjálfunarpakkann má útbúa fyrir allt að 16 nemendur í einu sem læra og spila saman í skemmtilegu og árangursríku umhverfi.
Hægt er að panta námskeið og liðakeppni fyrir karla, konur og börn.
Kennurum er bent á að smella á Upplýsingar fyrir kennara hægra megin á síðunni.
Jack Nicklaus og SNAG®
Bandaríski atvinnukylfingurinn Jack Nicklaus mun á árinu 2013 standa fyrir viðamiklu grasrótarstarfi í samstarfi við SNAG® Golf og NRPA (National Recreation & Parks Association).
Ætlunin er að nýta almenningsgarða og önnur opin svæði til að kynna byrjendagolf fyrir milljónum barna og fullorðinna og nota til þess SNAG® kennsluefni og búnað. Með því að nýta almenningssvæði má gera golf og golfkennslu aðgengilegri og veita nemendum örugga, ódýra og þægilega leið inn á golfvöllinn.
Jack Nicklaus deildirnar skiptast eftir aldri í 5-6 ára, 7-8 ára, 9-10 ára og 11-12 ára hópa auk fullorðinsdeilda. Hver deild hefur ramma og námsefni sem hæfir viðkomandi aldri. Deildirnar bjóða gæðakennslu og þjálfun fyrir byrjendur til að komast inn í leikinn og gera hann skemmtilegan. Þegar nemendur eru tilbúnir til að færa sig yfir í hefðbundinn búnað á golfvellinum byggja þeir á góðum grunni og stuðla að því að gera golfíþróttina samkeppnishæfari við aðrar íþróttir.