Veljið trausta púttaðferð!

Almennt á litið mætti skipta hverjum golfhring í 60% högg og 40% pútt. Þrátt fyrir það er púttkennsla aðeins um 6% kennslunnar sem kylfingar kaupa hjá golfkennurum. Meginmarkmið hvers golfkennara er að hjálpa nemandanum að njóta leiksins betur. Með einfaldri aðferð og traustu kerfi má auka púttfærni nemandans, sem er oft fljótlegasta leiðin til að fækka höggunum.

Á síðasta ári kynntist ég SeeMore Putter Institute (SPi). Auk þess að framleiða púttera hafa þeir hannað einfalt og traust kennslukerfi til að bæta púttin. Pútterarnir eru mismunandi að gerð og lögun en eiga það sameiginlegt að hafa allir leiðbeinandi rauðan punkt til að hjálpa kylfingum að ná hlutlausri uppstillingu og hlutlausum bogadregnum ferli. Þetta kallar SeeMore fyrirtækið RifleScope Technology (RST).

Í þessari kennslugrein ætla ég að kynna lykilatriði RST aðferðarinnar.


1. Hlutlaus uppstilling
2. Gripið
3. Rétti pútterinn
4. Púttstrokan
5. Hugarfarið


1. Hlutlaus uppstilling

Til að fá hlutlausa uppstillingu er auðveldast að byrja með líkamann í beinni spennulausri stöðu og góðu jafnvægi. Gott er að hugsa allt út frá miðju líkamans, taka um pútterinn með „góðu gripi“ og fá kylfuhausinn beinan út frá líkamsstöðu (sjá mynd 1).

Láta handleggina hanga niður með síðunni (sjá mynd 2).

Halla sér yfir kúluna frá mjöðm með allar línur samsíða upphafsstefnu kúlunnar, þ.e. tálínu, hnjálínu, mjaðmalínu, axlalínu og augnlínu. Skaftið kemur beint út frá miðjum líkamanum og kúlan liggur við sæta blett (sweet spot) kylfuhaussins (sjá mynd 3).

Augun eru ekki yfir kúlunni eins og kennt er í mörgum púttaðferðum, heldur rétt fyrir innan. Það hjálpar okkur að ná eðlilegri stroku (sjá mynd 4).

Til umhugsunar: Líkamsstaðan er uppréttari en oftast er kennt í púttum, líkari því sem við værum í venjulegum fullum höggum.

Magnus Birgis uppstill3Magnus Birgisson putt01Magnus Birgisson putt0
2. Gripið

Markmiðið með gripinu er að handleggirnir hangi eðlilega niður með síðunni og að pútterinn fái sjálfur að sveiflast í sinn náttúrulega feril.
Í RST á gripið að vera í fingrunum, ekki í lófanum eða líflínunni (sjá mynd 5 og 6). Það hjálpar okkur að ná spennulausu flæði í púttstrokuna og dregur úr stýriáhrifum handa.

Til umhugsunar: Er gripið okkar þannig að við finnum taktinn og flæðið í púttstrokunni eða stýra hendurnar hreyfingunni?

3. Rétti pútterinn

Þegar við höfum náð réttri stöðu og gripi er rétti pútterinn lykilatriði fyrir stöðugleikann. Hann er sniðinn í þá lengd og legu sem hjálpar okkur að ná bestu uppstillingu aftur og aftur, auk þess að tryggja stöðugleika í púttstrokunni.

Til umhugsunar: Er pútterinn sniðinn að okkar þörfum eða þurfum við að laga okkur að pútternum?

4. Púttstrokan

Í púttkennslu eru kenndar tvær meginaðferðir:
beint aftur /beint í gegn – Þegar gripið er yfir höggstefnunni, kylfan kemur beint niður og er öll í eða yfir höggstefnunni, þá er eðlilegt að púttstrokan sé beint aftur og beint í gegn.
púttstroka með eðlilegum boga – Í golfi stöndum við til hliðar við höggstefnuna með hendurnar einnig fyrir innan höggstefnuna, þá er eðlilegt að myndist smá bogadreginn ferill í púttstrokuna.

Líkamsstaðan, gripið og staða kúlunnar í RST aðferðinni hjálpar kylfingnum að ná náttúrulegum bogadregnum sveifluferli.

Til umhugsunar: Magapútterar einfalda margt í púttunum. Rétt uppsettur magapútter eykur stöðugleika og allar stellingar ganga út frá miðju líkamans. Einnig verður sveifluferillinn náttúrulega bogadreginn. RST aðferðin og magapúttaðferðin vinna vel saman og því gott að æfa báðar í einu (sjá mynd 7 og 8).

5. Hugarfarið

Einbeita sér að takti og hraða. Fá tilfinningu fyrir pendúlhreyfingu. Hugsa stutta púttstroku fyrir stutt pútt og lengja púttstrokuna fyrir lengri pútt.

Koma sér upp æfingum sem okkur finnst skemmtilegar og tengjast þeim markmiðum sem við erum að vinna að. Læra að setja æfingarnar upp og gera þær reglulega. Benda má á nýútkomið æfingasafn sem heitir Golfæfingar Pútt & Vipp eftir Heiðar Davíð Bragason og Hlyn Geir Hjartarson, þar sem allir geta fundið æfingar við sitt hæfi.

Þegar við svo flytjum tæknina yfir í golfleikinn tekur rútínan við þar sem við lesum flötina, sjáum púttið fyrir okkur og sendum kúluna í rétta stefnu á hraðanum sem við fundum; flæði og taktur orðin hluti af okkur.

Gangi ykkur vel!

Magnus Birgis grip1Magnus Birgis grip2Magnus Birgisson putt4

Karfa

 x 
Karfan þín er tóm