SNAG færir golfíþróttina til fjöldans

022SNAG (Starting new at golf) er hannað af PGA atvinnumönnum og golfkennurum sem nýttu eiginleika og smáatriði hefðbundins golfs við þróun búnaðar og kennsluaðferða. Gullbjörninn Jack Nicklaus, er dyggur stuðningsmaður SNAG en hann telur að börn fái ekki næg tækifæri til þess að kynnast golfinu nógu snemma á lífsleiðinni.  
Búnaðurinn er litríkur og auðveldur í notkun og er frábær kennslu- og æfingabúnaður fyrir byrjendur og lengra komna á öllum aldri. Með SNAG fá kylfingar tækifæri til að læra og æfa sig með öðrum, en um leið að þróa hæfileika, getu og skilning á þeim hraða sem hverjum og einum hentar.


Með SNAG er hægt að nýta mun minni úti- og innisvæði til að læra að spila golf og þannig geta íþróttafélög, líkamsræktarstöðvar, hótel og ferðaþjónustuaðilar auk golfklúbba auðveldlega boðið viðskiptavinum sínum upp á skemmtilega dagskrá. Markmiðið er að færa golfíþróttina til fjöldans með námi sem tekur lítið pláss, er ódýrt og sérlega skemmtilegt.
25 leiðbeinendur hafa nú þegar útskrifast með réttindi í kennslu SNAG á Íslandi og nýta fjölmargir golfklúbbar SNAG búnaðinn og kennslufræðina í þjálfun sinni. Grunnskólar í Þorlákshöfn og á Selfossi, ásamt Lindaskóla í Kópavogi hafa bætt SNAG kennslu inn í leikfimitíma og í Vættaskóla í Grafarvogi er boðið upp á valáfanga í SNAG golfi.
Hissa.is vinnur að útbreiðslu SNAG á Íslandi í samvinnu við Golfsamband Íslands. Í undirbúningi eru námskeið á landsbyggðinni fyrir þá sem hafa áhuga á að gerast SNAG leiðbeinendur.