Pútt

Margir telja að púttin séu mikilvægasti hluti golfleiksins. Erfitt er að áætla eðlilegan púttfjölda miðað við forgjöf en ein reikniregla segir að

  • ef spilað er á 99 höggum er eðlilegt að púttin séu 38,
  • ef spilað er á 89 höggum gæti verið eðlilegt að púttin væru 35,
  • ef höggin eru 79 gætu púttin verið 32 og
  • af 71 höggi á hring séu púttin 29.

Burtséð frá þessum vangaveltum eru kylfingar flestir sammála um að púttin gefi frábært tækifæri til að fækka höggunum og þar með lækka forgjöfina.

Til eru margar leiðir til að fækka púttunum. Sumir kylfingar æfa allt árið, úti yfir sumartímann og inni yfir vetrartímann. Margir nýta einmitt vetrartímann til að æfa púttin undir handleiðslu golfkennara. Þá eru sett markmið, unnið í tækniatriðum og æft á milli tíma eftir sérstakri æfingaráætlun þar til sett markmið nást. Gott er að æfa skipulega og í félagsskap við aðra en einnig er hægt að æfa í stofunni eða á ganginum heima.

Haft er eftir Deane Beman í bókinni „Lights-Out Putting” að rétt uppstilling í púttum sé mikilvægust. Ef uppstillingin er ekki rétt, sé algerlega ómögulegt að ná framförum í þeim.

Fyrsta skrefið til að fækka púttunum er að gera sér grein fyrir hvernig púttafjöldinn þróast. Gott er að merkja fjölda pútta sérstaklega á skorkortið þegar spilað er (nota bara næsta reit fyrir aftan töluna sem lýsir höggafjöldanum á hverri holu). Að leik loknum má skoða fjölda pútta og bera saman við fyrri hringi. Í framhaldinu er vænlegt að taka frá tíma til að sinna púttunum betur, fara í púttkennslu og læra betri tækni og æfingar.

Haft er eftir þeim fræga kylfingi Gary Player að því meira sem hann æfði púttin, því heppnari yrði hann í þeim!