Langa spilið

Þegar talað er um langa spilið er átt við upphafshöggin og höggin sem slegin eru á brautinni eða í kringum brautina á leiðinni að flötinni. Þegar nær kemur að flötinni tekur stutta spilið við með fleyghöggunum, vippunum og púttunum þar til boltinn er kominn ofan í holuna.

Undirbúningur
Góð uppstilling er mikilvægasta grunnatriðið í hverri sveiflu kylfingsins
Jafnvægi er lykilatriði í hverri sveiflu
Öruggasta leiðin til að ná stöðugleika í höggunum er að venja sig á agaðan undirbúning.

Kylfingar eru oft duglegastir að æfa langa spilið. Að fara á æfingasvæðið og slá úr einni fötu. Mikilvægt er að hafa ákveðið mið þegar farið er á æfingasvæðið og miða á ákveðinn blett eða svæði til að skerpa athyglina meðan æft er. Ganga aftur fyrir boltann og setja miðið áður en slegið er.
Margir æfa sig með því að byrja t.d. á að slá með sjö járni. Þegar kylfingurinn er orðinn ánægður með hvernig sveiflan og höggin eru með sjö járninu er hægt að færa sig í 6 járn, 5 járn og síðan í blendingskylfur og drivera. Fara í lengri kylfurnar þegar ákveðinn stöðugleiki er kominn í sveifluna með járnakylfunum.
 
Gott er að átta sig á hvernig langa spilið er með því að skrá á skorkortið hvar löngu höggin lenda þegar spilað er. Lenda þau venjulega vinstra megin á brautinni, hægra megin, á miðri braut eða lenda þau venjulega úti í móa? Hægt er að skrá H fyrir hægra megin eða V fyrir vinstra megin til að átta sig á hvernig flug boltans er. Þá er hægt að segja golfkennaranum hvernig tilhneigingin er og ráða bót á vandanum og laga það sem þarf að laga.