Undirbúningur

Kylfingar eru ánægðastir þegar þeir eru að taka framförum í golfinu.  Meiri líkur eru á að kylfingar taki framförum ef þeir stunda líkamsæfingar sem henta þeim samhliða golfinu. Kylfingar eru á öllum aldri og því þurfa þeir að huga að teygjum og æfingum sem henta líkamsástandi og aðstæðum þeirra.

Mælt er með því að allir kylfingar mæti tímanlega á teig og fari í gegnum ákveðið teygjuprógramm áður en leikur hefst. Einnig er gott að teygja á líkamanum á eftir golfleikinn.

Einnig þurfa kylfingar að huga að andlega þættinum í golfinu. Vitað er að neikvætt viðhorf hefur slæm áhrif á golfleikinn en jákvætt viðhorf getur bætt hann. Einnig er oft rætt um að sjálfstraust í golfinu sé mikilvægt. Alla þessa þætti er hægt að þjálfa og einnig er hægt að æfa sig að spila undir pressu, til að frammistaðan í mótum og þegar mikið liggur við, verði betri.

Félagslegi þátturinn er mikilvægur þáttur í golfi. Félagsskapurinn getur verið frábær leið til að kynnast nýju fólki og mynda tengsl við nýtt fólk. Leikmenn af mismunandi getu og aldri geta spilað saman og keppt á vinalegum nótum á jafnréttisgrunni þökk sé forgjafarkerfinu sem notað er í golfinu.  Flestir þekkja að skemmtilegra er að spila við jákvæða kylfinga sem kunna reglurnar og halda leikhraða.

Einstaklingsþátturinn í golfinu snýst um að eiga stöðugt í baráttu við sjálfan sig í því að lækka forgjöfina sína, láta skapið ekki hlaupa með sig í gönur en láta jákvæðni og gott sjálfstraust hjálpa sér í hringnum, og eiga góðan hring á uppáhaldsvellinum sínum.


Líkamsþjálfun
Þrjár góðar ástæður eru fyrir því að kylfingar stunda líkamsþjálfun til að undirbúa golfleik sinn:

1. Minni líkur eru á meiðslum í golfinu. Líkamsþjálfun stuðlar að því að minni hætta er á meiðslum í golfinu og kylfingar eru fljótari að ná sér af meiðslum ef þeir verða fyrir þeim.
2. Kylfingar sem eru í góðu líkamsástandi geta notið golfsins alla ævi og gert golfið að “leik lífs síns” með því að spila golf langt fram á efri ár eða eins lengi og líkaminn leyfir.
3. Að lokum er mesti ágóðinn af því að æfa fyrir golf sá að einnig er verið að æfa fyrir heilbrigðan lífstíl sem fylgir golfinu. Ef löngun þín til að lækka forgjöfina getur leitt til þess að þú verðir virkari og lífsstíll þinn heilbrigðari mun ekki bara golfið verða betra heldur lífsgæði þín einnig. Þér mun líða betur, líta betur út og spila betra golf. Það er frábær blanda.

 
Andleg þjálfun
Sama hvort kylfingar spila golf sér til skemmtunar um helgar eða í fríum eða stunda keppnisgolf og miklar æfingar á golfið að vera til að njóta þess.

Golfíþróttin er einstök að því leyti að andlegi þátturinn er jafn mikilvægur og líkamlegi þátturinn.

Fjögurra og hálfs klukkutíma golfhringur samanstendur af ótal einstökum augnablikum þar sem kylfingar slá upphafshögg, löng högg af braut, fleyghögg og vipp og pútt í stutta spilinu nálægt og á flötunum. Allt í þeim tilgangi að koma kúlunni í hverja holuna á fætur annarri. Kylfingar verja mikið af tíma golfhringsins í að ganga á milli högga sinna og einfaldlega standa tilbúnir fyrir næsta högg og bíða eftir því að geta slegið eða púttað. Með þessu er ekki verið að segja að gott líkamlegt ástand sé ekki mikilvægt í golfi heldur verið að leggja áherslu á að óvirki tíminn geti verið jafn mikilvægur og tíminn sem er beinlínis virkur í golfleiknum.

Það sem gerist í höfði kylfingsins á milli og á meðan slegið er svo mikið lykilatriði í golfinu. Líkamlegi og tæknilegi þátturinn í golfleiknum er mjög mikilvægur en einnig það sem hugsað er á milli högganna og meðan beðið er eftir að leika næst.

Sumir kylfingar eiga auðvelt með að halda aga á hugsunum sínum í golfleiknum en aðrir þurfa að æfa sig að halda aga á hugsunum sínum svo þær komi að gagni í golfleiknum en skemmi ekki fyrir. Ef þessi agi á hugsunum kemur ekki á eðlilegan hátt er hægt að læra og þjálfa hugsanir og aga þær svo gagnlegt sé fyrir golfleik viðkomandi kylfings. Hægt er að ná góðum árangri í að aga hugann og hugsa hugsanir sem gagnlegar eru í golfleiknum með því að æfa það og bæta andlega þáttinn í golfinu eins og þann tæknilega og líkamlega.

Eins og í öðru í golfinu skiptir reynslan máli varðandi andlega þáttinn.  Talað er um að golfarar þurfi að “þroskast sem kylfingar”.  Þá er átt við að þeir nái smám  saman sjálfstrausti við að leysa þau verkefni sem leikurinn færir þeim á vellinum og nái tökum á hugsunum sínum og gerðum.