Úthlutað úr Minningasjóði Harðar Barðdal í fyrsta sinn
Á miðvikudag var úthlutað í fyrsta sinn úr Minningarsjóði Harðar Barðdal. Höfður var frumkvöðull og afreksíþróttamaður úr röðum fatlaðra. Markmið minningarsjóðsins er að halda á lofti þeim kyndli er Hörður tendraði með starfi sínu í þágu fatlaðra íþróttamanna almennt og í þágu fatlaðra kylfinga sérstaklega. Var það einlægur ásetningur hans að hvetja fatlaða til golfæfinga og að auka aðgengi og áhuga þeirra á golfíþróttinni.
Golfsamtök fatlaðra, GSFÍ, hlaut fyrstu úthlutun úr sjóðnum og fengu samtökin SNAG golfbúnað. Það er æfingabúnaður sem auðveldar bæði fötluðum sem ófötluðum að tileinka sér golftæknina á sem auðveldastan hátt.
GSFÍ hefur haldið úti æfingum fyrir fatlaða á undanförnum árum, en Hörður Barðdal var einmitt einn af stofnendum samtakanna á sínum tíma. Jóhann Hjaltason golfkennari hefur haldið utan um æfingar GSFÍ sem að mestu hafa farið fram hér í Hafnarfirði í æfingaaðstöðu Golfklúbbsins Keilis.
SNAG hentar fyrir bæði fatlaða og ófatlaða
SNAG (sem útleggst, Starting new at Golf) er frábært kennslukerfi sem ætlað er fólki á öllum aldri og hvaða getustigi sem er. Kerfið hentar báðum kynjum, börnum, fullorðnum og öldruðum. SNAG kerfið hentar einnig vel til að kenna fötluðum einstaklingum.
SNAG má setja upp hvort heldur er úti eða inni. Kennslan er þess vegna ekki bundin golfvelli eða æfingasvæði því nota má SNAG þar sem aðstæður leyfa hverju sinni.
SNAG snýst um að hafa gaman á meðan verið er að læra grundvallaratriðin í golfi. Hugtökin sem notuð eru í SNAG skapa skýrar myndir í huga nemandans og stuðla þannig að auknum skilningi hans á golfleiknum.
Stefnt að því að styrkja fleiri verkefni
Hugmyndin að stofnun sjóðsins kviknaði hjá dætrum Harðar, Jóhönnu, Sesselju og Fanney, sumarið 2010, tæplega ári eftir lát föður þeirra. Sjóðurinn var síðan stofnaður um mitt ár 2011 og hófst þá söfnun í sjóðinn sem ætlaður er að til að styðja við starfsemi fatlaðra kylfinga og verkefni sem þeir taka þátt í.
Sjóðurinn stefnir að því að styrkja mismunandi verkefni, hvort heldur er einstaklinga, þjálfara eða verkefni tengd útbreiðslumálum á landsvísu, að því gefnu að þau verkefni samræmist reglum sjóðsins að öðru leyti.