SNAG er á fleygiferð og dreifist hratt um landið

snag-3Sumir nemendur hafa sagt að SNAG sé það skemmtilegasta í skólanum
-segir Ragnar Hilmarsson, skólastjóri Vættaskóla sem hefur boðið upp á SNAG sem valgrein í skólanum. „Það sem heillaði mig við þetta var að undirstaðan er sú sama og í venjulegu golfi og græjurnar eru litríkar og skemmtilegar. Til að kenna þetta þarf vissan aga sem við viljum hafa á golfvöllum landsins“, segir Ragnar Hilmarsson, kylfingur og skólastjóri í Vættaskóla í Reykjavík um SNAG-ið en það er á fullri ferð og dreifist hratt um landið að sögn Ingibjargar Guðmundsdóttur hjá Hissa ehf. Við höfum sagt frá SNAG sem er skemmtileg leið til kynningar á golfíþróttinni. Ragnar er einn af þeim sem hefur tekið SNAG inn í skólann til að kynna golfið fyrir nemendum.

Hvenær byrjaðir þí í golfi og hver er forgjöfin?
„Ég byrjaði í golfi vegna þess að tveir Íslandsmeistarar, Ragnhildur Sigurðadóttir og Örn Ævar Hjartason kenndu með mér í Árbænum og þau voru dugleg að kynna íþróttina fyrir okkur. Örn Ævar bjó til mót árlega og sló eitt högg á móti hverju 3-5 höggum okkar hinna sem vorum allir byrjendur. Hvernig hann nennti því skil ég ekki í dag. Haustið 2006 var ég orðinn snaróður og var á litla Korpuvellinum alltaf þegar ég gat. Gekk í Golfklúbb Selfoss 2007. Það var ódýrt og fáir að spila. Árið eftir var ég kominn í  GKG og er enn jafnspenntur. Forgjöfin stendur í 14,5 eins og er en stefnt er á einhverja lækkun í sumar en fyrst og fremst að njóta þess að leika mér úti í náttúrunni.“

Hvernig heyrðir þú fyrst af SNAG?

„Ég heyrði og sá SNAG fyrst upp í sófa heima þegar ég var að horfa á golfþátt  á ÍNN. Þar var SNAG kynnt og ég hugsaði strax að þetta væri skemmtileg valgrein í skólum.  Þegar þetta var sýnt áttu nemendur einmitt að fara að velja, þannig að ég stökk til og talaði við deildarstjórann minn sem hvatti mig strax til að bjóða upp á þetta.  Ég kynnti valið án þess að vita almennilega um hvað þetta snerist og eiga nokkrar græjur til. Til allrar hamingju völdu nokkrir krakkar þetta og ég er búinn að vera með þetta í eitt ár núna og það eru tveir hópar sem hafa farið í gegnum  námskeið sem er ein önn, 80 mínútur einu sinni í viku.  

Hvernig hefur starfsemin gengið hingað til?

„Ég hef ekki heyrt annað en að krakkarnir hafi verið mjög sáttir. Öllum finnst gaman og sumir hafa látið þau orð falla að þetta sé það skemmtilegasta sem þau hafa gert í skólanum.  Þannig að ég er mjög sáttur við hvernig þetta fór af stað. Ég hef kennt þetta að mestu inni í íþróttahúsi skólans, en ef veðrið er gott er minnsta mál að færa kennsluna út. Skemmtileg tilbreyting fyrir mig líka frá stærðfræðikennslunni sem auðvitað er frábær líka. En SNAGIÐ hef ég notað á stærðfræðideginum þar sem nemendur koma og pútta og vippa, reikna saman og búa til myndrit af árangri sínum, þannig að það er hægt að samþætta greinarnar mínar á skemmtilegan hátt. Og auðvitað er SNAG stöð á íþróttadegi skólans. Fyrst til að byrja með björguðu félagar mínir í GKG mér um græjurnar þar sem skólar hafa takmarkað fé. En skólinn minn, Vættaskóli, á nú lágmarksgræjur sem hafa dugað okkur vel. Það er svo hægt að versla meira smám saman.

Hvernig hafa viðtökurnar verið?
„
Næsta ár býð ég upp á SNAG 1 og SNAG 2, sem er fyrir þá sem eru búnir með fyrra námskeiðið. SNAG 2 hugsa ég meira sem leiki og þrautir. Svo er bara að sjá hvort nógu margir velja. Ég er í návígi við GR og Korpuna og klúbburinn hefur verið mjög liðlegur við okkur. Við höfum fengið að koma í púttaðstöðuna þeirra og þeir leyfðu okkur að spila nokkrar holur á litla vellinum með SNAG græjunum og hef ég fengið vilyrði um áframhaldandi velvild hjá þeim. SNAG 2 gæti líka endað með vorinu á golfvellinum og Básum með venjulegar kylfur.“

Hefur þú einhver góð ráð fyrir aðra sem hafa áhuga á að taka þátt í útbreiðslu golfsins með SNAG?

„Ég hef nú séð að SNAG er í mikilli útbreiðslu hérlendis sem erlendis og ég hvet fólk sem hefur áhuga á að koma þessu inn í skólann sinn að henda sér bara af stað. Boðið er upp á flott námskeið fyrir kennara sem Magnús Birgisson hefur séð um og hann kann fullt af skemmtilegum æfingum og leikjum sem hann er ekkert að liggja á. Ef fólk hefur áhuga á golfíþróttinni þá er þetta gríðarlega skemmtileg kennsla. Nemendur fá líka stundum að ráða hvað þeir vilja gera, búa til golfbrautir og þrautir. Þannig að þetta höfðar til þeirra og getur kveikt áhuga þeirra á íþróttinni ef  þeir hafa hann ekki  fyrir.“